Aron loks að fá tækifæri?

Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson.

Dvöl Arons Jóhannssonar hjá þýska knattspyrnufélaginu Werder Bremen hefur mátt líkja við hálfgerða martröð, en hann kom til félagsins frá AZ Alkmaar í Hollandi fyrir 5 milljónir evra í ágúst 2015. Nú gæti loksins verið að rætast úr stöðu hans hjá félaginu.

Aron, sem er 27 ára gamall, náði aðeins að leika 15 deildarleiki á fyrstu tveimur leiktíðum sínum í Þýskalandi, en hann var frá keppni í næstum heilt ár vegna meiðsla í mjöðm. Fyrir yfirstandandi tímabil kenndi Aron sér hins vegar einskis meins, og hafði raunar ekki gert í lengri tíma, en þjálfarinn Alexander Nouri var með framherjann í hálfgerðum „frystiklefa“. Aron sagði í samtali við Morgunblaðið í ágúst að útlit væri fyrir að hann færi frá félaginu, en sú varð ekki raunin, og lék hann aðeins þrjár mínútur í þýsku 1. deildinni í haust þegar hann kom tvisvar inná sem varamaður.

Nouri var rekinn í nóvember og var hinn 35 ára gamli Florian Kohfeldt ráðinn þjálfari Werder Bremen í hans stað. Kohfeldt virðist hafa meiri trú á Aroni, og hafa hug á að nýta krafta hans nú þegar ljóst er að annar framherji, Þjóðverjinn Fin Bartels, mun ekki spila meira á leiktíðinni vegna meiðsla.

„Við erum með Aron Jóhannsson sem hefur litið vel út hérna,“ sagði Kohfeldt við þýsku fréttaveituna DPA, í æfingabúðum Werder Bremen í bænum Algorfa á Spáni. Þar undirbýr liðið sig fyrir seinni hluta keppnistímabilsins, sem hefst eftir viku.

„Ég kann mjög vel að meta hann. Hann getur líka leyst nokkur hlutverk,“ sagði Kohfeldt, sem útilokaði þó ekki að félagið fengi nýjan framherja nú í janúar en ítrekaði að engin þörf væri fyrir nýja skammtímalausn í þeim efnum með leikmenn á borð við Aron í hópnum.

Werder Bremen er í fallsæti í þýsku 1. deildinni, í 16. sæti af 18 liðum með 15 stig eftir 17 leiki, tveimur stigum frá næsta örugga sæti. Liðið mætir Hoffenheim næsta laugardag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert