Góð byrjun hjá James

Hermann Hreiðarsson og David James.
Hermann Hreiðarsson og David James. mbl.is/Árni Sæberg

David James, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Englendinga, sem lék með ÍBV árið 2013, fór vel af stað með lið Kerala Blasters í indversku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

James var ráðinn þjálfari liðsins í síðustu viku og stýrði því í fyrsta skipti í gær þegar það hafði betur gegn Delhi Dynamos á útivelli, 3.1. Kanadamaðurinn Iain Hume skoraði öll mörk Kerala Blasters í leiknum en liðið er í 6. sæti af 10 liðum í deildinni.

Mbl.is greindi frá því um síðustu helgi að Hermann Hreiðarsson væri að taka við starfi sem aðstoðarmaður James og markvörðurinn fyrrverandi staðfesti í gær að Hermann væri væntanlegur til starfa hjá félaginu á næstu dögum.

James lék undir stjórn Hermanns með Eyjamönnum árið 2013 og var einnig í þjálfarateymi liðsins en Hermann og James léku saman með Portsmouth í þrjú ár og urðu bikarmeistarar með liðinu árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert