Kolbeinn líklega í gegnum læknisskoðun - aðrir möguleikar óhuggulegir

Kolbeinn Sigþórsson fer í læknisskoðun á morgun.
Kolbeinn Sigþórsson fer í læknisskoðun á morgun.

Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, fer í læknisskoðun á morgun hjá franska liðinu Nantes þar sem metið verður hvort kappinn eigi sér framtíð hjá félaginu.

Ljóst er að stuðningsmenn Nantes eru áhugasamir um mögulega framvindu mála hjá Kolbeini en löng grein er um hann í staðarblaðinu Ouest-France í dag þar sem framtíð hans er metin en hann hefur verið frá vegna hnémeiðsla síðan í ágúst 2016.

Í fréttinni kemur fram að hver einasti leikmaður sem hefur verið frá í meira en 30 daga þurfi að fara í læknisskoðun hjá félögum í Frakklandi. Kolbeinn fór í slíka skoðun í október 2017 þar sem hann var áfram metinn meiddur. 

Greint er frá þremur mögulegum útkomum úr læknisskoðuninni á morgun. Líklegast er talið að Kolbeinn verði metinn hæfur til þess að hefja æfingar á morgun en hann fór í forskoðun á þriðjudaginn í síðustu viku þar sem hann leit vel út og margt benti til þess að hann gæti hafið æfingar að nýju.

Aðrir möguleikar í stöðunni eru ólíklegri og öllu harkalegri. Sá möguleiki er fyrir hendi að Kolbeinn verði áfram talinn meiddur. Þá munu laun hans verða greidd af CPAM, sem er nokkurs konar tryggingastofnun í Frakklandi, sem einnig mun mögulega sjá um að gera upp við félagið.

Þriðji möguleikinn er sá að Kolbeinn verði talinn óhæfur til þess að leika knattspyrnu á ný (fr. inapte à la pratique du football). Þá mun félagið þurfa að endurskilgreina á ný Kolbein sem starfskraft, sem aftur mun byggjast á hæfni hans til þess að leika knattspyrnu. Er þá möguleiki á að félagið geti nýtt sér klausu í samningi hans og riftun. Þessari ákvörðun væri hægt að áfrýja.

Rétt er að ítreka að tveir síðarnefndu möguleikarnir eru taldir mun ólíklegri en sá fyrsti. 

Líklegast er því talið að Kolbeinn verði sýnilegri á æfingasvæði Nantes á næstunni en hans bíður þar það verkefni að sýna ítalska knattspyrnustjóranum Claudio Ranieri að hann eigi erindi í liðið. Það mun svo aftur sjálfsögðu hjálpa Kolbeini við að komast á ný í íslenska landsliðið en hann hefur sjálfur sagt markmið sitt og vilja vera að komast með því á HM í Rússlandi í sumar.

Vonandi sjáum við Kolbein sem fyrst í gula búningnum.
Vonandi sjáum við Kolbein sem fyrst í gula búningnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert