Hólmbert Aron til liðs við Aalesund

Hólmbert Aron á leikvangi Aalesund í dag.
Hólmbert Aron á leikvangi Aalesund í dag. Ljósmynd/aafk.no

Sóknarmaðurinn Hólmert Aron Friðjónsson er genginn í raðir norska B-deildarliðsins Aalesund en hann skrifaði í dag undir þriggja ára samning við félagið.

Hólmbert Aron kemur til Aalesund frá Stjörnunni og hann verður fjórði Íslendingurinn í herbúðum félagsins sem féll úr norsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Með liðinu leika Aron Elís Þránd­ar­son, Daní­el Leó Grét­ars­son og Adam Örn Arn­ar­son.

Lars Bohinen sem tók við þjálfun Aalesund fyrir nokkrum vikum hefur lengi fylgst með Hólmberti og fékk hann til reynslu til Sandefjord í haust þar sem hann var þjálfari en ekkert varð af félagaskiptunum.

 „Við ætluðum að kaupa hann. Það var allt klárt en félögin náðu ekki saman. Okkur fannst það heimskulegt þá en núna held ég það hafi verið mjög gott. Hann býr yfir miklum hæfileikum og það er engin tilviljun að hann var hjá Celtic og Bröndby,“ segir Bohinen á vef Aalesund.

Hólmbert skoraði 11 mörk í 19 leikjum með Stjörnunni á síðustu leiktíð en Stjarnan hefur fengið Guðmund Stein Hafsteinsson frá Víkingi Ólafsvík til að leysa hann af hólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert