Rúnar samdi við St. Gallen

Rúnar Már Sigurjónsson með trefil frá St. Gallen eftir undirskriftina …
Rúnar Már Sigurjónsson með trefil frá St. Gallen eftir undirskriftina í dag.

Rúnar Már Sigurjónsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, skrifaði rétt í þessu undir samning við svissneska félagið St. Gallen sem fær hann lánaðan frá Grasshoppers í Sviss út þetta keppnistímabil.

Rúnar gekkst undir læknisskoðun hjá St. Gallen í dag og í kjölfarið var skrifað undir samninginn. Hann fer nú  beint til Spánar með liðinu í æfingabúðir þar sem það býr sig undir seinni hluta tímabilsins í Sviss en þar er St. Gallen í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar.

Rúnar er 27 ára gamall miðjumaður og kom til Grasshoppers frá Sundsvall í Svíþjóð sumarið 2016. Hann á að baki 15 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert