Viðar Örn kominn í sögubækurnar

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. AFP

Viðar Örn Kjartansson, landsliðsframherji í knattspyrnu og leikmaður Maccabi Tel Aviv í Ísrael, setti félagsmet í gærkvöldi þegar hann skoraði eftir aðeins 13 sekúndur í 3:1-sigri gegn Maccabi Haifa.

Viðar Örn var þarna að skora fljótasta markið í sögu Maccabi Tel Aviv og sló um leið 56 ára gamalt met. Áður hafi Moshe Asis skorað eftir 17 sekúndur árið 1962, eftir því sem greint er frá á heimasíðu félagsins.

Viðar Örn bætti svo við öðru marki í síðari hálfleik og er nú kominn með 10 mörk í deildinni á þessari leiktíð en hann er næstmarkahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar í Ísrael.

mbl.is