Neymar með fernu í sögulegum sigri

Neymar fagnar einu af fjórum mörkum sínum í kvöld.
Neymar fagnar einu af fjórum mörkum sínum í kvöld. AFP

Brasilíumaðurinn Neymar, dýrasti leikmaður knattspyrnusögunnar, fór heldur betur á kostum með liði sínu PSG í kvöld þegar liðið rótburstaði Dijon 8:0 í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu. Þetta er stærsti sigur PSG í sögunni á heimavelli í öllum keppnum.

Neymar skoraði fjögur mörk í leiknum, en staðan var 4:0 eftir fyrri hálfleik. Auk fjögurra marka frá Neymar skoraði Ángel Di Maria tvö mörk og þeir Edison Cavani og Kylian Mbappé skoruðu eitt mark hvor. Neymar lagði upp tvö af þeim mörkum.

Eftir að Neymar var keyptur á metfé frá Barcelona í sumar hefur hann spilað 23 leiki, skorað 24 mörk og lagt upp önnur 16 mörk. Hann hefur því komið við sögu í 40 mörkum í 23 leikjum með liði sínu.

PSG er langefst í deildinni með 56 stig eftir 21 leik og er með 11 stiga forskot á Lyon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert