Hjálpa liðinu við að rjúka upp töfluna

Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson skrifaði nú undir kvöld undir samning við rússneska knattspyrnufélagið Rostov og hann gildir út leiktíðina.

„Mér líst mjög vel á þetta. Móttökurnar sem ég hef fengið frá öllum og sérstaklega forseta Rostov hafa verið ótrúlega góðar,“ sagði Ragnar í samtali við mbl.is.

Ragnar hefur þar með vistaskipti frá rússneska liðinu Ru­bin Kaz­an sem hann hefur spilað með frá því síðastliðið vor þar sem hann var á lánssamningi frá enska B-deildarliðinu Fulham. Ekki er um lánssamning að ræða hjá Rostov en Fulham hefur staðfest að Ragnar sé laus allra mála hjá félaginu.

„Það er frábært að hafa Sverri og Bjössa hérna líka,“ segir Ragnar en Sverr­ir Ingi Ingason gekk í raðir Rostov fyr­ir tíma­bilið frá spænska liðinu Gran­ada og Björn Berg­mann Sigurðarson samdi við rúss­neska liðið á dög­un­um, sem keypti hann frá norska úr­vals­deild­arliðinu Molde.

Spurður hvort það komi til greina að semja við Rostov til frambúðar eftir að tímabilinu lýkur sagði Ragnar:

„Það er ekki hægt svara því núna en miðað við fyrstu kynnin af félaginu þá býst ég við því að vera opinn fyrir því eftir tímabilið en ég mun bara að skoða þessi mál þegar að því kemur. Fyrst og fremst ætla ég að koma mér í toppstand og reyna að hjálpa liðinu við að rjúka upp töfluna,“ sagði Ragnar.

Rostov er í 10. sæti af 16 liðum í rúss­nesku úr­vals­deild­inni þegar leikn­ar hafa verið 20 um­ferðir af 30. Tæp­lega þriggja mánaða vetr­ar­hlé er gert á deild­inni sem hefst ekki aft­ur fyrr en í byrj­un mars.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið frá RostovTV af komu Ragnars til Antalya í Tyrklandi þar sem liðið er í æfingabúðum og viðtal við hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert