Eitraðasti sóknardúettinn

Lionel Messi og Luis Suárez fagna í gærkvöld.
Lionel Messi og Luis Suárez fagna í gærkvöld. AFP

Lionel Messi og Luis Suárez er eitraðasti sóknardúettinn í boltanum í dag en þeir voru á skotskónum með Barcelona í 5:0 útisigri gegn Real Betis í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í gærkvöld.

Þeir hafa nú skorað 34 mörk samanlagt fyrir Barcelona í deildinni, Messi 19 og Suárez 15, og eru markahæstir. Þetta var fjórði leikurinn í röð sem þeir Messi og Suárez skora í en báðir skoruðu þeir tvö mörk í leiknum. Þetta er aðeins í fjórða sinn í sögu Barcelona sem sömu tveir leikmennirnir skora í fjórum leikjum í röð en Suárez hefur verið sérlega skæður upp við markið síðustu vikurnar og hefur skorað í sjö leikjum í röð.

Suárez er búinn að skora 100 deildarmörk fyrir Barcelona og það í aðeins 114 leikjum og hefur enginn áður í sögu félagsins verið svo fljótur að ná því að skora 100 mörk.

Messi er búinn að skora 25 mörk fyrir Barcelona í öllum keppnum á tímabilinu og þetta er 10. tímabilið í röð sem hann skorar 25 mörk eða fleiri í öllum keppnum á einu tímabili en það hefur enginn afrekað í spænsku 1. deildinni áður. Messi hefur skorað samtals 368 mörk í deildinni í 404 leikjum.

mbl.is