Maður þarf alltaf að vera á tánum

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Wolfsburg

„Ég er virkilega ánægð með að vera búin að gera nýjan samning. Ég er í toppaðstæðum hjá Wolfsburg. Ég spila í sterkustu deildinni, á móti bestu leikmönunum og með bestu leikmönnunum og hér hef ég tækifæri til að bæta mig sem leikmaður og verða betri,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir við mbl.is en hún framlengdi í dag samning sinn við þýska meistaraliðið Wolfsburg.

Sara Björk er nú samningsbundin Wolfsburg til ársins 2020 en hún kom til liðsins frá sænska liðinu Rosengård árið 2016 og gerði þriggja ára samning. Sara vann tvöfalt með Wolfsburg á síðustu leiktíð en liðið var bæði þýskur meistari og bikarmeistari. Sara er einn af lykilmönnum í frábæru liði Wolfsburg en hún hefur komið við sögu í öllum 11 leikjunum í deildinni og hefur skorað þrjú mörk í þeim og þá hefur hún skorað 4 mör í fjórum leikjum í Meistaradeildinni á tímabilinu.

Samkeppnin hörð og hef bætt mig sem leikmaður

„Ég hef bætt mig sem leikmaður frá því ég kom til Wolfsburg. Ég var alveg í góðu formi fyrir en ég er í betra formi núna, er með meira sjálfstraust og er mikilvægur leikmaður fyrir félagið sem er góð tilfinning. Maður þarf samt alltaf að vera á tánum. Samkeppnin um stöður er mikil í liðinu og maður er alltaf að berjast fyrir sínu sæti. Það ýtir manni bara áfram og þrátt fyrir að vera orðin 27 ára þá er maður ennþá að bæta sig. Það er gott að vita til þess hversu mikið traust ég hef. Ég spila flest alla leikina er í mikilvægu hlutverki,“ sagði Sara Björk við mbl.is en hún er stödd í æfingabúðum með Wolfsburg í Portúgal.

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Wolfsburg

Wolfsburg trónir á toppi þýsku deildarinnar, er með þriggja stiga forskot Bayern München. Þá er liðið í 16-liða úrslitum í bikarkeppninni og er komið í átta liða úrslit í Meistaradeildinni þar sem liðið mætir tékkneska liðinu Slavia Prag.

„Núna er ég svona í hálfgerðum herbúðum hér í Portúgal þar sem við erum að undirbúa okkur undir seinni hluta tímabilsins. Markmið hjá okkur er að vinna deildina og bikarinn eins og í fyrra og þá er hugur í okkur að fara sem lengst og helst alla leið í Meistaradeildinni. Það er gríðarlega mikill metnaður hjá félaginu á öllum sviðum og ég hef fulla trú að við getum farið alla leið á þessum þremur vígstöðvum. Það eru spennandi tímar framundan,“ sagði Sara Björk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert