Hjörtur sá rautt eftir hálftíma

Hjörtur Hermannsson.
Hjörtur Hermannsson. Ljósmynd/Brøndby

Varnarmaðurinn Hjörtur Hermannsson var rekinn af velli eftir aðeins 30 mínútur í svekkjandi jafntefli liðsins gegn AaB í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Lokatölur urðu 1:1 og er Brøndby nú þremur stigum á eftir toppliði Midtjylland sem vann FC København 3:1 á heimavelli í dag.

Hjörtur fékk sitt annað gula spjald á 30. mínútu er hann togaði í andstæðing sinn innan vítateigs og var rekinn af leikvelli. Víti var dæmt en Kasper Kusk skaut beint á Frederiks Rønnow í markinu.

Þrátt fyrir að vera færri komst Brøndby í 1:0 með marki frá Benedikt Röcker á 50. mínútu. Jores Okore jafnaði metin á 62. mínútu fyrir Álaborgarliðið og urðu 1:1 lokatölur. 

Brøndby hefur 47 stig í 2. sæti. Liðið hefur litið afar vel út á leiktíðinni og er í ágætu færi til þess að vinna fyrsta meistaratitil félagsins síðan árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert