„Dómararnir hata mig“

Diego Costa.
Diego Costa. AFP

„Dómararnir hata mig og ég get ekkert gert í því,“ sagði framherjinn Diego Costa í liði Atletíco Madrid eftir sigur sinna manna gegn Athletic Bilbao í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í gær.

Costa var afar óhress með að fá ekki dæmda vítaspyrnu í fyrri hálfleik og hlaut hann gult spjald fyrir mótmæli við dómara leiksins. Costa innsiglaði sigur Atlético Madrid þegar hann skoraði annað markið 10 mínútum fyrir leikslok. Þetta var annað mark hans í fimm deildarleikjum með Madridarliðið en hann yfirgaf Chelsea í haust og varð löglegur með liði Atlético Madrid í janúar.

„Sumir dómarar gefa mér áminningu fyrir minnstu hluti og það skiptir ekki máli hvað það er. Dómarinn ætlaði að spjalda mig sama hvað gerðist. Ég verðskuldaði ekki að fá þetta spjald. Ég fór ekki yfir strikið í mótmælum mínum. Þetta var klárt víti sem ég átti að fá. Ég fór úr jafnvægi eftir snertingu frá varnarmanni þegar ég ætlaði að fara að skjóta á markið,“ sagði hinn skapmikli Costa eftir leikinn en Atlético Madrid er í öðru sæti spænsku deildarinnar, sjö stigum á eftir toppliði Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert