Messi tryggði jafntefli með sögulegu marki

Lionel Messi og N'Golo Kante berjast um boltann í leiknum …
Lionel Messi og N'Golo Kante berjast um boltann í leiknum í kvöld. AFP

Stórmeistarajafntefli var niðurstaðan á Stamford Bridge í Lundúnum í kvöld þegar Chelsea og Barcelona skildu jöfn í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Bayern München er hins vegar nánast öruggt áfram í keppninni.

Fyrri hálfleikur var markalaus en bráðfjörugur. Barcelona var mikið mun meira með boltann en skipulag Chelsea hélt hins vegar vel og náðu gestirnir ekki einu skoti á markið í fyrri hálfleik. Willian í liði Chelsea átti hins vegar tvö skot utan teigs sem fóru í markstangir Barcelona, en staðan markalaus í hálfleik.

Allt er þá er þrennt er og Willian kom Chelsea yfir á 62. mínútu þegar þriðja skot hans utan teigs rataði nú í netið. Barcelona pressaði og það skilaði sér á 75. mínútu þegar slæm sending í vörn Chelsea opnaði allt upp á gátt og Lionel Messi skoraði. Messi hafði aldrei áður skorað gegn Chelsea þrátt fyrir átta leiki og var það versta tölfræði hans gegn nokkru liði á ferlinum.

Lokamínúturnar voru svo spennandi þegar sem liðin leituðu að sigurmarki, en það kom ekki og niðurstaðan 1:1 jafntefli fyrir síðari viðureignina á Nývangi eftir þrjár vikur.

Bayern ekki í neinum vandræðum

Þýskalandsmeistarar Bayern München geta bókað farseðilinn áfram eftir 5:0 sigur á Besiktas frá Tyrklandi. Tyrkirnir misstu mann af velli eftir stundarfjórðung og eftir það var aldrei spurning hvernig færi.

Thomas Müller skoraði eina mark fyrri hálfleiks en eftir hlé opnuðust allar flóðgáttir. Müller bætti við öðru marki sínu, Kingsley Coman skoraði einu sinni og Robert Lewandowski bætti tveimur mörkum við. 5:0 sigur þeirra þýsku staðreynd.

Chelsea 1:1 Barcelona opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert