Má ég faðma þig?

Jose Mourinho fylgist með sínum mönnum í kvöld.
Jose Mourinho fylgist með sínum mönnum í kvöld. AFP

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United var nokkuð sáttur við markalausa jafnteflið gegn Sevilla á útivelli í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. 

Hann hlakkar til að spila seinni leikinn á heimavelli.

„Ef við gerum markajafntefli í seinni leiknum þá erum við úr leik en ef við vinnum erum við komnir áfram. Þetta verður erfitt, en ég held að stuðningsmennirnir séu búnir að sakna þess að fá stóra Evrópuleiki á Old Trafford. Við spiluðum átta liða úrslit og undanúrslit þar á síðustu leiktíð en Meistaradeildin er öðruvísi en Evrópudeildin."

Portúgalinn var spurður út í frammistöðu Scott McTominay og var hann augljóslega mjög ánægður með miðjumanninn unga. 

„Má ég faðma þig?" sagði Mourinho léttur og hélt áfram. „Spurningarnar voru um Paul Pogba fyrir leik en spurningarnar ættu að vera um McTominay. Hann var frábær og gerði allt vel. Hann kom í veg fyrir að Banega gæti spilað boltanum. Pogba kom svo inn og stóð sig vel," sagði Mourinho. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert