Ranieri tilbúinn að hætta

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

Claudio Ranieri, þjálfari franska knattspyrnuliðsins Nantes sem Kolbeinn Sigþórsson er samningsbundinn hjá, segist tilbúinn að hætta með liðið verði honum boðið að taka við þjálfun ítalska landsliðsins.

Ranieri, sem er 66 ára gamall og gerði Leicester City óvænt að Englandsmeisturum 2016, er einn þeirra sem hafa verið orðaðir við starf landsliðsþjálfara eftir að Gian Piero Ventura lét af störfum í kjölfar þess að Ítölum tókst ekki að vinna sér sæti í úrslitakeppni HM í Rússlandi í sumar.

„Allir ítalskir þjálfarar myndu elska það að stýra landsliðinu,“ sagði Ranieri í viðtali við Sky Sport Italia.

„Ég á tvö ár eftir af mínum samningi við Nantes en ég hef ekki fengið nein skilaboð svo ég get ekkert sagt. En ef það verður haft samband við um starf landsliðsþjálfara þá mun ég fara til forseta Nantes og óska eftir því að verða leystur frá störfum,“ sagði Ranieri sem víða hefur komið við á þjálfaraferli sínum.

Meðal þeirra liða sem hann hefur þjálfað eru Juventus, Napoli, Roma Chelsea, Valencia og Atlético Madrid. Hann tók við þjálfun Nantes í fyrra eftir að hafa verið rekinn frá Leicester í febrúar í fyrra.

Auk Ranieri hafa Antonio Conte, Carlo Ancelotti og Roberto Mancini verið orðaðir við landsliðsþjálfarastarfið en Luigi Di Biagio þjálfari U21 árs landsliðs Ítala var ráðinn tímabundið til að stýra A-landsliðinu og verður í brúni þegar Ítalir mæta Argentínumönnum og Englendingum í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert