Glæsileg tilþrif Guðjóns dugðu ekki til

Guðjón Baldvinsson spilaði vel en það dugði ekki til sigurs.
Guðjón Baldvinsson spilaði vel en það dugði ekki til sigurs. Ljósmynd/Twitter-síða Kerala

Guðjón Baldvinsson og liðsfélagar hans í Kerala Blasters í indverska fótboltanum gerðu markalaust jafntefli við Chennaiyin á heimavelli í efstu deild þar í landi í dag. Guðjón náði í vítaspyrnu á 53. mínútu eftir glæsilegan sprett en Courage Pekuson brást bogalistin á vítapunktinum. 

Guðjón var líflegur í leiknum og átti nokkrar tilraunir að marki gestanna. Karanjit Singh í markinu spilaði hins vegar gríðarlega vel. Guðjón lék í fremstu víglínu og var Dimitar Berbatov, fyrrum leikmaður Manchester United og Tottenham, fyrir aftan hann. Wes Brown lék svo allan tímann í hjarta varnarinnar. 

Leikurinn var gríðarlega mikilvægur, en með sigri hefði Kerala komist upp í 4. sæti deildarinnar. Efstu fjögur liðin leika til úrslita um Indlandsmeistaratitilinn. Kerala er sem stendur í 5. sæti þegar einn leikur er eftir af deildarkeppninni, einu stigi á eftir Jamshedpur, sem á leik til góða. Takist Jamshedpur að vinna topplið Bangaluru á morgun, eru Guðjón og félagar úr leik í baráttunni um titilinn. 

Takist það hins vegar ekki fær Kerala eitt tækifæri í viðbót og getur náð fjórða sætinu með sigri í síðasta leiknum og hagstæðum úrslitum annars staðar. Hér að neðan má sjá glæsileg tilþrif hjá Guðjóni er hann nældi í vítaspyrnuna.

Guðjón hitar upp ásamt liðsfélögum sínum í dag.
Guðjón hitar upp ásamt liðsfélögum sínum í dag. Ljósmynd/Twitter-síða Kerala
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert