Gott gengi Real Madrid heldur áfram

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu fyrir Real Madrid gegn Alavés …
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu fyrir Real Madrid gegn Alavés í dag. AFP

Cristiano Ronaldo skoraði tvö marka Real Madrid þegar liðið lagði Alavés að velli með fjórum mörkum gegn engu í 25. umferð spænsku efstu deildarinnar í knattspyrnu karla á Santiago Bernabéu í dag.

Gareth Bale skoraði eitt marka Real Madrid og Karim Benzema rak síðasta naglann í líkkistu Alavés með marki sínu úr vítaspyrnu undir lok leiksins. 

Ronaldo hefur nú skorað 14 mörk í deildinni á yfirstandandi leiktíð, en Lionel Messi, leikmaður Barcelona er markahæsti leikmaður deildarinnar á leiktíðinni með 20 mörk. Luis Suárez, samherji Messi hjá Barcelona er næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 17 mörk.

Real Madrid hefur hrist af sér slyðruorðið eftir brokkgengi framan af leiktíðinni. Real Madrid er nú ósigrað í síðustu sex leikjum liðsins í deild og Meistaradeild Evrópu. Real Madrid hefur haft betur í fimm leikjanna og gert jafntefli í einum.

Real Madrid er í þriðja sæti deildarinnar með 51 stig eftir þennan sigur, en liðið er fjórum stigum á eftir nágrönnum sínum, Atlético Madrid, sem er sæti ofar og ellefu stigum á eftir Barcelona sem trónir á toppi deildarinnar.

Barcelona og Atlético Madrid eiga leik til góða á Real Madrid, en Barcelona mætir Girona í kvöld og Atético Madrid mætir Sevilla annað kvöld.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert