Kostirnir við gervigrasið eru augljósir

Brann Stadion, heimavöllur Brann í Bergen, er einn af sex …
Brann Stadion, heimavöllur Brann í Bergen, er einn af sex grasvöllum sem eftir eru hjá liðum í norsku úrvalsdeildinni.

„Úrvalsdeildin hérna í Noregi gæti aldrei byrjað 10. mars ef ekki væru svona mörg lið komin með gervigras á sína keppnisvelli,“ segir Magni Fannberg, þróunarstjóri yngri leikmanna hjá norska knattspyrnuliðinu Brann frá Bergen, en það er eitt af sex „grasliðum“ sem eftir eru í norsku úrvalsdeildinni.

„Þó að Brann hafi tekið þá ákvörðun að vera áfram með gras á sínum velli næstu árin þá eru kostirnir við gervigrasið augljósir. Liðin geta æft og spilað á sínum leikvangi allt árið, eru alltaf á sama undirlagi, eru alltaf í sínum búningsklefum, og svo er þróunin á gervigrasinu þannig að vellirnir eru stöðugt að verða flottari og viðhaldið á þeim betra. Síðan má ekki gleyma því að hér í Noregi er að koma upp kynslóð sem hefur að mestu alist upp á gervigrasi og þekkir nánast ekki annað,“ sagði Magni þegar Morgunblaðið ræddi við hann um vallarmálin í Noregi.

Sjá umfjöllun í Morgunblaðinu í dag:

Nýtt met hjá Norðmönnum

„Undirbúningstímabilið er erfiðara hjá okkur í Brann af þessum sökum en hjá liðunum sem eru með gervigras. Við erum mikið í æfingaferðum erlendis og svo er æft í höllum hérna í Bergen sem eru í 20 mínútna akstursfjarlægð frá vellinum okkar. Þetta kostar því talsverða keyrslu á hverjum degi því leikmennirnir borða morgunmat og hádegismat á félagssvæðinu.

En það eru líka viðbrigði fyrir okkur þegar við komumst út úr höllunum og á gervigras utanhúss, því þar er eðlilegri raki í lofti og vellirnir betri af þeim sökum.“

Magni Fannberg, til hægri, er þróunarstjóri yngri leikmanna hjá Brann. …
Magni Fannberg, til hægri, er þróunarstjóri yngri leikmanna hjá Brann. Til vinstri er Hassan El Fakiri, einn af unglingaþjálfurum félagsins og fyrrverandi leikmaður Brann. Ljósmynd/brann.no


Magni þekkir einnig vel til í Svíþjóð eftir að hafa þjálfað í mörg ár hjá Brommapojkarna í Stokkhólmi.

„Þar sjáum við að stór félög eins og Djurgården og Hammarby eru komin á gervigrasleikvang sem rúmar 30 þúsund áhorfendur. Hammarby er að fara að setja gervigras á nánast allt sitt æfingasvæði. Þegar ég þjálfaði í Svíþjóð var það ákveðið vandamál að vera ýmist að spila á góðum gervigrasvöllum eða slæmum grasvöllum.“

„Þetta mun þróast svona áfram á næstu árum á öllum Norðurlöndunum, líka á Íslandi þó þar séu góðir grasvellir eins og Kópavogsvöllur og Laugardalsvöllur. Annars verða það bara stærstu félögin á Norðurlöndum sem munu halda í náttúrulega grasið því þau hafa efni á því. Þar sem hægt er að halda við flottum grasvöllum verður það eflaust gert áfram en ég sé ekki annað en að þeim muni halda áfram að fækka jafnt og þétt á næstu árum,“ sagði Magni Fannberg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert