Gylfi alvarlega meiddur í hné?

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Everton, meiddist illa á hné í leik Everton og Brighton á laugardaginn.

Gylfi varð fyrir meiðslum á liðböndum í hné en hann fer til frekari skoðunar hjá sérfræðingum í dag að því er Ólafur Már Sigurðsson bróðir Gylfa sagði í samtali við mbl.is í morgun. Ekki var hægt að greina meiðslin til hlítar í gær þar sem hnéð var mjög bólgið og læst en það verður gert í dag. Ekki er víst að liðböndin hafi slitnað en úr því fæst skorið í dag.

Ljóst er að Gylfi Þór verður frá keppni í einhvern tíma. Það gætu orðið einhverjar vikur eða mánuðir en ef allt fer á versta veg gæti hann misst af heimsmeistaramótinu í Rússlandi en fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður gegn Argentínumönnum 16. júní. Það yrði gífurlegt áfall fyrir landsliðið ef Gylfi yrði ekki með enda hann er algjör lykilmaður í liðinu.

Gylfi haltraði af velli í seinni hálfleik en hann virtist hafa snúið upp á hnéð. Eftir aðhlynningu utan vallar kom hann aftur inn á og lék leikinn til enda sem Everton vann, 2:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert