Furðuleg ummæli Mourinho vekja athygli

José Mourinho eftir leikinn í kvöld.
José Mourinho eftir leikinn í kvöld. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, lét furðuleg orð falla á fréttamannafundi eftir 2:1-tap hans manna á heimavelli gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. 

United er fallið úr leik í keppninni eftir tapið og sagði Mourinho að það væri ekkert nýtt hjá félaginu að falla úr leik í keppninni, enda hafi hann í tvígang stýrt liðum sem hafa slegið United úr leik.

„Ég hef tvisvar setið í þessum stól eftir leiki í Meistaradeildinni og í bæði skiptin hef ég slegið United úr leik. Fyrst með Porto og svo Real Madrid. Þetta er ekkert nýtt fyrir félagið,“ sagði Mourinho. Ummælin hafa ekki fallið vel í kramið hjá stuðningsmönnum félagsins, en einhverjir eru búnir að fá nóg af Portúgalanum. 

mbl.is