Landsliðsþjálfara Þjóðverja sagt upp

Steffi Jones.
Steffi Jones. Ljósmynd/dfb.de

Þýska knattspyrnusambandið greinir frá því á vef sínum í dag að Steffi Jones hafi verið sagt upp störfum sem þjálfari þýska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.

Horst Hrubesch, fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands, hefur verið ráðinn tímabundið í þjálfarastarfið en hann þjálfaði U21 ára karlalið Þjóðverja um árabil með góðum árangri. Hrubesch mun stýra liðinu í leikjunum gegn Tékkum og Slóvenum í undankeppni HM í næsta mánuði.

Þjóðverjar leika í riðli með Íslendingum í undankeppni HM en Ísland vann frækinn sigur gegn Þjóðverjum á útvelli í september, 3:2.

Þýskaland er í toppsæti riðilsins með 9 stig, Tékkland og Ísland hafa 7 stig, Slóvenía 3 og Færeyjar reka lestina án stiga.

Þýska landsliðið er efst á heimslista FIFA en því vegnaði afar illa á fjögurra liða móti sterkustu liða heims í byrjun mánaðarins. Þjóðverjar töpuðu þar 0:1 fyirr Bandaríkjunum og 0:3 fyrir Frakklandi og gerðu 2:2 jafntefli við England.

mbl.is