Var svindlað í Íslendingaleik?

Robert Laul ræðir við Lars Lagerbäck fyrir æfingu íslenska landsliðsins …
Robert Laul ræðir við Lars Lagerbäck fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Annecy á meðan EM stóð yfir í Frakklandi sumarið 2016. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Sænski blaðamaðurinn Robert Laul fullyrðir í bók sem kemur út á morgun að brögð hafi verið í tafli í leik í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu fyrir fimm árum, en tveir íslenskir leikmenn komu við sögu í leiknum.

Umræddur leikur er viðureign Halmstad og Mjällby sem fram fór í október 2013, í þriðju síðustu umferðinni, og lauk með sigri Halmstad, 1:0. Sigurmarkið í leiknum skoraði Kristinn Steindórsson úr vítaspyrnu seint í leiknum en hann og Guðjón Baldvinsson léku með Halmstad þetta ár og Guðjón var líka í liðinu í leiknum. Lið þeirra fékk afar dýrmæt stig í fallbaráttunni með þessum sigri.

Bókin sem heitir „Alkisbarn“ og fjallar aðallega um æsku og uppvöxt blaðamannsins, kemur út á morgun en Aftonbladet birti í dag kafla úr henni. Laul starfar sem blaðamaður hjá Aftonbladet. Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, átti í útistöðum við Laul á sínum tíma þegar Lagerbäck starfaði sem landsliðsþjálfari Svía en Lagerbäck mun hafa verið mjög ósáttur við vinnubrögð blaðamannsins á þeim tíma. Laul mætti síðan á EM í Frakklandi sumarið 2016, gagngert til að fjalla um Lagerbäck og íslenska landsliðið.

Í bókinni segir Laul m.a.: „Þar sem ég fylgist mjög vel með þessum málum komst ég í samband við aðila sem vissu hvað var í gangi. Ég komst að því nokkrum áður síðar að á árunum 2011 til 2013 hafi hópur manna reynt að hafa áhrif á úrslitin í minnsta kosti tveimur leikjum í sænsku úrvalsdeildinni, sem og bikarúrslitaleikinn milli Helsingborg og Kalmar. Þessir tveir leikir þar sem úrslitin urðu samkvæmt óskum þessara manna voru Kalmar - Malmö (1:2) og Halmstad - Mjällby (1:0). Mér var sagt að allt að fjórir leikmenn Kalmar og Mjällby hafi veirð undir þrýstingi frá þessum mönnum og líta verður á félög þeirra sem fórnarlömb glæps í þessu samhengi."

Guðjón Baldvinsson og Kristinn Steindórsson, bláklæddir, í leik með Halmstad …
Guðjón Baldvinsson og Kristinn Steindórsson, bláklæddir, í leik með Halmstad árið 2013. Ljósmynd/Gunnar Elíson

Bikarúrslitaleikur Helsingborg og Kalmar sem þarna er nefndur fór fram árið 2011. Guðjón Pétur Lýðsson, núverandi leikmaður Vals, var í leikmannahópi Helsingborg en sat á varamannabekknum allan tímann í úrslitaleiknum. Enginn Íslendingur var í röðum Kalmar og Malmö þegar liðin mættust í leiknum sem þarna er nefndur  til sögunnar en hann fór  fram árið 2012.

Bókin hjá Laul er ekki sú eina sem nefnir þessi meintu svindlmál. Í næstu viku kemur út bók í Svíþjóð sem ber nafnið „Matchfixarna", eftir Jens Littorin og Magnus Svenungsson. Þar er  fjallað um veðmálasvindl í kringum fótboltann og leikur Halmstad og Mjällby er sérstaklega nefndur til sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert