Gylfi verður með á HM - Frá í 6-8 vikur

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson verður klár í slaginn með íslenska landsliðinu á HM í Rússlandi í sumar en hann meiddist á hné í viðureign Everton gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um síðustu helgi og óttuðust menn það versta þegar fyrstu fregnir bárust að um alvarleg meiðsli væru að ræða.

Gylfi fór til skoðunar hjá hnésérfræðingi í fyrrakvöld og hefur íslenska þjóðin beðið með öndina í hálsinum til fá að vita niðurstöðu úr þeirri skoðun.

Ekkert hefur heyrst úr herbúðum Everton vegna meiðslanna fyrr en nú rétt í þessu en fram kemur á vef Everton að reiknað sé með að Gylfi verði frá keppni í 6-8 vikur.

„Við höldum áfram að meta meiðslin Gylfa frá viku til viku og sjúkraþjálfarateymið mun vinna náið með honum, eins og það gerir með meidda leikmenn, til að fá hann aftur út á völlinn eins fljótt og hægt er,“ segir Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton.

Óvíst er hvort Gylfi nái að spila meira með Everton á þessu tímabili en lokaleikur Everton í ensku úrvalsdeildinni er á móti West Ham þann 13. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert