Mættur á völlinn eftir 559 daga fjarveru

Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. AFP

Þegar Kolbeinn Sigþórsson lék í 86 mínútur með Nantes gegn Bordeaux 28. ágúst árið 2016 renndi ekki nokkurn mann í grun hversu langt myndi líða þar til hann spilaði sinn næsta knattspyrnuleik.

Tveimur dögum síðar var Kolbeinn lánaður til Galatasaray í Tyrklandi. Hann fór síðan til móts við íslenska landsliðið í Þýskalandi vegna undirbúnings fyrir leik gegn Úkraínu, fyrsta leikinn í undankeppni HM 2018 sem fram fór í Kiev 5. september 2016.

Þar komu meiðsli í hné í ljós og Kolbeinn fór til Tyrklands í frekari skoðun hjá Galatasaray.

Spilaði í C-deildinni

Framhaldið þekkja flestir knattspyrnuáhugamenn. Kolbeinn gekkst undir tvær aðgerðir á hné á árinu 2017, náði ekki að spila einn einasta leik það sem eftir var af tímabilinu 2016-17 og hóf loksins æfingar á ný með Nantes í janúar á þessu ári. Á laugardaginn spilaði hann í 65 mínútur með varaliði franska félagsins þar sem hann tók þátt í 2:1 heimasigri gegn Changé í frönsku C-deildinni.

Það var hans fyrsti knattspyrnuleikur í hvorki meira né minna en 559 daga, eða frá áðurnefndum leik gegn Bordeaux.

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Nantes, sagði fyrir nokkrum vikum að ekki mætti búast við Kolbeini inni á vellinum fyrr en liði á marsmánuð. Nú hefur fyrsta skrefið verið stigið og fyrstu mínúturnar eru að baki.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag