Erum tilbúnir að endurtaka leikinn

HM-sætinu fagnað.
HM-sætinu fagnað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Bergsson formaður KSÍ er bjartsýnn á að íslenska landsliðið í knattspyrnu geti endurtekið árangurinn frá því á EM fyrir tveimur árum og komist upp úr riðlinum á HM í Rússlandi í sumar.

Ísland komst í 8-liða úrslit á Evrópumótinu eftir sigur á Englendingum í 16-liða úrslitunum en í 8-liða úrslitunum töpuðu Íslendingar fyrir Frökkum.

„Við erum í mjög erfiðum riðli en fyrir tveimur árum komum við öllu fótboltasamfélaginu á óvart með frammistöðunni á Evrópumótinu í Frakklandi og nú erum við tilbúnir að endurtaka leikinn.

Ég get ekki ímyndað mér hversu okkar lið getur komist langt á HM en ég get sagt með fullri vissu að þeir leikmenn sem fara til Rússlands munu spila með hjartanu,“ sagði Guðni í viðtali við rússnesku fréttastofuna Tass.

Leikir Íslands á HM:

16. júní: Ísland - Argentína

22. júní: Ísland - Nígería

26. júní: Ísland - Króatíambl.is