Vilja ekki að landsliðið fari til Rússlands

Frá leik Englands og Íslands á EM í Frakklandi.
Frá leik Englands og Íslands á EM í Frakklandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Rétt tæplega helmingur þeirra Englendinga, sem tóku þátt í skoðanakönnun heimasíðunnar Forza Football, vilja að enska landsliðið hætti við að spila á HM í Rússlandi.

Mikill hiti er á milli Englands og Rússlands um þessar mundir eftir að eitrað var fyrir fyrrverandi rússneska njósnaranum Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans í Salisbury á Englandi í byrjun mánaðar.

48% þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnuninni vildu ekki að enska landsliðið færi á HM á meðan 52% vildu að enska liðið væri á meðal þátttakenda í Rússlandi, en um 1.000 manns tóku þátt í könnuninni. 

Hvorki konungsfólk né ráðamenn frá Englandi verða á mótinu, en Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, hefur tjáð sig um málið. 

„Auðvitað er þetta mjög alvarlegt mál, en mitt starf snýst um að undirbúa knattspyrnumenn. Við erum tilbúnir til að fara á HM og það er rétt ákvörðun. Það mikilvægasta er öryggi leikmanna og stuðningsmanna, við einbeitum okkur að því,“ sagði Southgate. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert