Eins og ég væri leikskólastrákur

Rúnar Már Sigurjónsson með trefil frá St. Gallen.
Rúnar Már Sigurjónsson með trefil frá St. Gallen. Ljósmynd/St.Gallen

Rúnar Már Sigurjónsson var valinn maður leiksins af svissneska dagblaðinu Blick fyrir frammistöðu sína með St. Gallen gegn Grasshoppers í gær en hann skoraði þá glæsilegt mark og lagði upp sigurmarkið í 2:1 sigri St. Gallen í viðureign liðanna í svissnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Hann var líka valinn maður leiksins af stuðningsmönnum St. Gallen í leikslok.

Rúnar er í láni hjá St. Gallen frá Grasshoppers og kom þangað í janúar eftir að hafa fengið takmörkuð tækifæri hjá nýjum þjálfara síðarnefnda liðsins, Murat Yakin, fyrir áramótin. Rúnar fer ekki leynt með andúð sína á Yakin í  viðtölum við svissneska fjölmiðla, bæði fyrir leik og eftir hann.

Nú hef ég náð að svara aðeins fyrir mig

„Yakin var stöðugt að setja út á mig og hjá Grasshoppers kom hann fram við mig eins og ég væri leikskólastrákur. Nú hef ég náð að svara aðeins fyrir mig. Eftir að hann tók við liði Grasshoppers hefur margt undarlegt verið í gangi, og neikvæð umræða hefur haft áhrif á leikmennina," sagði Rúnar við Blick.

Þá segir Rúnar að íþróttastjóri Grasshoppers, Mathias Walther, hafi látið Yakin stjórna sér. „Hann gerir bara það sem Murat Yakin segir. En ég veit að Walther núna er búinn að gera sér grein fyrir mistökunum sem hann hefur gert," sagði Rúnar sem fagnaði vel og innilega marki sínu gegn fyrrverandi samherjunum í gær.

Rúnar hefur átt góðu gengi að fagna með St. Gallen frá því hann kom þangað í janúar. Markið er hans þriðja í fjórum síðustu leikjum liðsins og þá hefur staða liðanna tveggja gjörbreyst eftir að Rúnar yfirgaf Grasshoppers. Rúnar byrjaði tímabilið vel, skoraði þrjú mörk í fyrstu níu leikjum Grasshoppes í haust, en fékk sárafá tækifæri hjá Yakin eftir það.

Hans gamla félag hefur tapað fjórum af síðustu sex leikjum sínum og hefur sigið niður í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar með 31 stig. Á meðan er St. Gallen búið að vinna sex af sjö leikjum sínum eftir að Rúnar kom til liðs við félagið og það er núna í þriðja sæti deildarinnar með 42 stig, jafnmörg og meistarar Basel sem eru í öðru sæti en 19 stigum á eftir Young Boys sem er yfirburðalið í deildinni í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert