Kolbeinn á skotskónum með Nantes

Kolbeinn Sigþórsson í baráttu við Blaise Matuidi í leik Íslands …
Kolbeinn Sigþórsson í baráttu við Blaise Matuidi í leik Íslands og Frakklands í átta liða úrslitum EM sumarið 2016. AFP

Kolbeinn Sigþórsson skoraði í gærkvöld sín fyrstu mörk frá því hann komst á ný inn á knattspyrnuvöllinn eftir fjarveru síðan í ágúst 2016.

Kolbeinn lék sinn annan leik með varaliði Nantes í frönsku E-deildinni en liðið sótti heim Mulsanne-Teloché. Kolbeinn skoraði bæði mörkin í 2:0 sigri Nantes en liðið er í öðru sæti í sínum riðli deildarinnar.

Hann var ekki valinn í 20 manna hóp aðalliðs Nantes fyrir útileik liðsins gegn Metz í dag en knattspyrnustjórinn Claudio Ranieri hefur farið fögrum orðum um Kolbein og frammistöðu hans á æfingum síðustu vikurnar og gefið til kynna að ekki sé þess langt að bíða að honum verði teflt fram.

Kolbeinn er sem kunnugt er í 29 manna landsliðshópi sem Heimir Hallgrímsson valdi á föstudag fyrir vináttulandsleikina gegn Mexíkó og Perú og kemur til móts við landsliðið á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert