Fyrsti ósigur Bayern í 19 leikjum

Naby Keita skoraði eitt og lagði upp annað fyrir Leipzig.
Naby Keita skoraði eitt og lagði upp annað fyrir Leipzig. AFP

Þýsku meistararnir í Bayern München máttu sætta sig við sitt fyrsta tap í 19 leikjum þegar liðið tapaði fyrir Leipzig, 2:1, í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í gær.

Bæjarar komust yfir með marki frá Sandro Wagner á 12. mínútu leiksins. Naby Keita, sem gengur í raðir Liverpool, jafnaði metin fyrir Leipzig á 37. mínútu og hann lagði svo upp sigurmarkið sem Timo Werner skoraði á 56. mínútu leiksins.

Þrátt fyrir ósigurinn er meistaratitillinn svo til í höfn hjá Bayern-liðinu. Það er með 66 stig í toppsæti deildarinnar, Schalke er í öðru sæti með 49 stig og Dortmund er í þriðja sætinu með 48 stig.

Fyrir leikinn í gær hafði Bayern München unnið 17 leiki og gert eitt jafntefli í síðustu 18 leikjum sínum en það tapaði síðast fyrir Borussia Mönchengladbach þann 25. nóvember á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert