Engar stjörnur í íslenska liðinu

Gylfi Þór Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson
Gylfi Þór Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson mbl.is/Kristinn Magnússon

John Fashanu, fyrrverandi landsliðsmaður Englendinga í knattspyrnu sem er fæddur í Nígeríu, ráðleggur þjálfarateymi nígeríska landsliðsins að leggja minni áherslu á lokaleikinn í riðlinum á HM sem verður gegn Argentínu og leggja þess í stað meiri áherslu á leikina við Króatíu og Ísland.

Nígeríumenn mæta Króatíu í fyrsta leiknum á HM þann 16. júní, Íslendingum 22. júní og Argentínumönnum 26. júní.

„Við höfum spilað mörgum sinnum á móti Argentínu sem þýðir að liðið er ekki nýr andstæðingur fyrir okkur. Við þekkjum þeirra lið vel. Tæknilega þurfum við kannski ekki að vinna Argentínumenn þegar við mætum þeim eins og þegar við mættum þeim á HM í Brasilíu þegar bæði lið voru komin áfram. Það gæti gerst aftur í Rússlandi,“ segir Fashanu í viðtali við New Telegraph.

„Við vitum hvað Argentínumenn geta gert og þeir eru meðvitaðir um hvað við getum gert. En getum við sagt það sama varðandi Króatíu og Ísland? Við vitum ekki mikið um þessi lið og þar að leiðandi ættum við ekki að beina sjónum okkar að leiknum við Argentínu,“ segir þessi fyrrum framherji enska liðsins Wimbledon sem einnig lék með Aston Villa, Norwich og Crystal Palace.

Nígeríumenn mæta Serbum og Pólverjum í vináttuleikjum á næstu dögum til undirbúnings fyrir heimsmeistaramótið og segir Fashanu að þeir leikir ættu að verða góður vettvangur fyrir Nígeríumenn að sjá hvað Króatía og Ísland koma til með að færa fram á HM.

„Ég segi með stolti að að við eigum mjög gott lið með leikmönnum sem eru tilbúnir að láta að sér kveða á stærsta sviði fótboltans. Serbar spila svipað og Króatar og leikurinn við þá ætti að verða góður undirbúningur fyrir leikinn á móti Króötum. Nokkrir af leikmönnum Króata, sérstaklega miðjumennirnir, spila með toppliðum í Evrópu en okkar leikmenn ættu að geta staðist þeim snúninginn hvað varðar getu.

Það eru engar stjörnur í íslenska liðinu. En það trúir á liðsheildina sem hefur verið þeirra helsti styrkur síðustu árin. En okkar leikmenn eru fjölhæfir sem bendir til þess að þeir geti tekist á við þá nálgun sem íslenska liðið kemur með í leikinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert