Skipuleggja læti fyrir framan liðsrútuna

Stuðningsmenn Liverpool fyrir framan liðsrútu Villarreal.
Stuðningsmenn Liverpool fyrir framan liðsrútu Villarreal. AFP

Hluti stuðningsmanna Liverpool er búinn að skipuleggja óblíðar móttökur er liðsmenn Manchester City mæta á Anfield fyrir leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. 

Fyrri leikur liðanna fer fram á Anfield 4. apríl næstkomandi. Einhver hluti stuðningsmanna Liverpool hefur ákveðið að hittast fyrir framan völlinn, tveimur tímum fyrir leik, til að sprengja flugelda, kveikja á blysum og vera með mikil læti, er rúta City-manna keyrir inn á völlinn. 

Stuðningsmennirnir gáfu leikmönnum Villarreal sömu móttökur fyrir leik liðanna í Evrópudeildinni árið 2016 og hefur lögreglan í Liverpool varað við handtökum og ákærum, verði af athæfinu. 

„Við vitum hvað hluti stuðningsmanna Liverpool ætlar að gera fyrir leikinn gegn Manchester City 4. apríl næstkomandi. Það verður mikil löggæsla á leiknum til að tryggja að allir geti notið þess að horfa á fótbolta í öruggu umhverfi.“

„Það verða fleiri lögregluþjónar við störf en venjulega og biðjum fólk um að vinna með okkur og ekki kveikja á blysum eða á flugeldum fyrir leik. Lögreglan tekur á öllu slíku og getur það endaði með handtökum og fangelsisvist,“ segir í yfirlýsingu sem lögreglan í Liverpool sendi frá sér í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert