Vill fá framtíð sína á hreint fyrir HM

Griezmann í leik Frakklands og Íslands á EM í fyrrasumar.
Griezmann í leik Frakklands og Íslands á EM í fyrrasumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Franski framherjinn Antoine Griezmann, leikmaður Atlético Madrid, vill að framtíð sín verði komin á hreint fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem hefst í Rússlandi eftir tæpa þrjá mánuði.

Griezmann hefur verið þrálátlega orðaður burt frá Atlético og er Barcelona sagt fylgjast grannt með stöðunni hjá hinum 27 ára gamla framherja. Atlético vill þó ekki missa hann og undirbýr nýtt samningstilboð. Hvort sem hann fari eða ekki vill Griezmann sjálfur að hlutirnir verði komnir á hreint fyrir HM.

„Ég vil fara til Rússlands án þess að hafa þetta hangandi yfir mér. Ekki bara að vita hvar ég muni spila, heldur til þess að losna við áhyggjurnar sem fylgja. Og það sem pirrar mig mest er að allir eru að spyrja mig út í þetta mál,“ sagði Griezmann.

Griezmann er á sínu fjórða tímabili með Atlético og hefur hann skorað 77 mörk í 137 leikjum í spænsku 1. deildinni með liðinu. Þá á hann að baki 19 mörk í 49 landsleikjum fyrir Frakkland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert