Draumabyrjun hjá Giggs - Bale setti met

Gareth Bale.
Gareth Bale. AFP

Ryan Giggs byrjar vel í starfi sem landsliðsþjálfari Wales í knattspyrnu en Walesverjar tóku Kínverja í bakaríið í viðureign þjóðanna á æfingamóti í Kína í dag.

Wales, sem lék sinn fyrsta leik undir stjórn goðsagnarinnar Ryan Giggs, vann stórsigur gegn lærisveinum Ítalans Marcelo Lippi, 6:0, en staðan í hálfleik var, 4:0.

Gareth Bale var maður leiksins en Real Madrid leikmaðurinn skoraði þrennu á þeim 63 mínútum sem hann spilaði og lagði upp eitt mark að auki. Bale er þar með orðinn markahæstur í sögu velska landsliðsins. Hann bætti markamet Liverpool goðsagnarinnar Ian Rush. Bale hefur nú skorað 29 mörk í 69 leikjum með Wales en Rush skoraði 28 í 72 leikjum.

Bale skoraði tvö fyrstu mörkin á fyrstu 20 mínútum leiksins og fullkomnaði þrennu sína á 62. mínútu rétt áður en hann fór af velli. Sam Vokes, liðsfélagi Jóhanns Bergs Guðmundssonar hjá Burnley, skoraði tvö mörk og Harry Wilson setti eitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert