Argentínumenn minnast Houseman

Lionel Messi og félagar hans á æfingu í Manchester.
Lionel Messi og félagar hans á æfingu í Manchester. AFP

Argentínumenn, sem verða fyrstu andstæðingar Íslendinga á HM í Rússlandi í sumar, munu bera sorgarbönd í vináttuleiknum gegn Ítölum á Ethiad-vellinum í Manchester í kvöld.

Argentínumenn bera sorgarböndin til heiðurs Rene Houseman sem lést eftir baráttu við krabbamein í gær. Housman, sem var 64 ára gamall, varð heimsmeistari með Argentínu árið 1978 en hann var einnig í liði Argentínumanna á HM 1974.

Houseman, sem af mörgum er talinn besti kantmaður Argentínu fyrr og síðar, lék 55 landsleiki og skoraði í þeim 13 mörk. Fyrir leikinn í kvöld verður einnar mínútu þögn til að heiðra minningu Houseman.

Rene Houseman og bróðir hans Marcelo Houseman sömdu við KR árið 1985 um að þjálfa yngri flokka félagsins jafnframt því að leika með liðinu. Ekkert varð hins vegar úr því þegar á hólminn var komið.

Í bókinni Íslensk knattspyrna eftir Víði Sigurðsson segir árið 1986;

Marcelo Houseman mun ekki ekki leika með KR í sumar frekar en Rene bróðir hans. Hann hvarf af landi brott af persónulegum ástæðum og KR-ingar telja ekki ástæðu til að hann kom aftur. Marcelo sýndi litla snilli þann tíma sem hann æfði með KR og lék aldrei með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert