Buffon um Messi og Ronaldo

Gianluigi Buffon.
Gianluigi Buffon. AFP

Argentínumenn, sem verða fyrstu andstæðingar Íslendinga á HM í Rússlandi í sumar, hefja undirbúninginn fyrir HM í kvöld þegar þeir mæta Ítölum í vináttuleik á Ethiad-vellinum í Manchester, heimavelli Manchester City.

Á fréttamannafundi í gær var markvörðurinn Gianluigi Buffon, fyrirliði Ítala, spurður út í samanburðinn á Lionel Messi og Cristiano Ronaldo, sem flestir eru sammála um að séu tveir bestu fótboltamenn veraldar

„Þeir eru mjög ólíkir leikmenn. Messi er meira alhliða leikmaður heldur en Ronaldo. Hann er aftar á vellinum, er með meiri tækni og yfirsýn á leikinn. Ronaldo, kannski því hann er aðeins eldri, hefur orðið baneitraður í teignum.

Hann er ekki eins orkumikill og áður. Hann sparar orkuna og fer ekki lengur út að hornfána  til að reyna einhver undraskot en þegar hann er með boltann í teignum þá getur hann búið til mörk,“ sagði Buffon, sem glímir við Messi í kvöld en mætir Ronaldo þegar Juventus og Real Madrid eigast við í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert