Er svo gaman að koma fólki á óvart

Jóhann Berg Guðmundsson og Dejan Lovren í leik Íslendinga og …
Jóhann Berg Guðmundsson og Dejan Lovren í leik Íslendinga og Króata á Laugardalsvellinum í fyrra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Jóhann Berg Guðmundsson segist reyna að halda einbeitingu sinni gagnvart Burnley í ensku úrvalsdeildinni á þessum tímapunkti frekar en heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar.

Jóhann Berg, sem verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn Mexíkó í Kaliforníu eftir miðnætti í nótt, er í viðtali í ensku pressunni í dag og þar er hann spurður út í Lionel Messi en fyrstu andstæðingar Íslendinga á HM í sumar verða Messi og félagar hans í argentínska landsliðinu.

„Ég horfi nokkuð á fótbolta í sjónvarpinu svo augljóslega sé ég Messi í spænsku deildinni og í Meistaradeildinni. Hann og Ronaldo eru ekki að spila sömu íþrótt því þeir skora í hverjum leik og ég veit ekki hvernig þeir gera það.

Ég hef mætt Ronaldo í leik. Hann er góður leikmaður en Messi er líklega honum fremri. Það verður erfitt að mæta honum en það er það góða við fótboltann að fá að mæta góðum leikmönnum,“ segir Jóhann Berg, sem hefur verið einn besti leikmaður Burnley á leiktíðinni.

„Ég reyni að hugsa ekki svo mikið um HM. Ég er bara einbeittur á lokasprettinn með Burnley og hugsa svo um HM eftir að tímabilinu lýkur með Burnley,“ segir Jóhann Berg en Ísland mætir Argentínu, Nígeríu og Króatíu á HM í Rússlandi í sumar.

„Jafnvel þótt við spilum við stóru liðin þá óttumst við þau ekki og það er hugarfarið í íslenska landsliðinu. Við vitum að við spilum best á móti stóru liðunum. Þetta er svipað og hjá Burnley þegar litið er á frammistöðuna á móti Manchester United þar sem sást hvað við gerðum vel og eins í útileikjunum á móti Liverpool og Tottenham.“

Jóhann Berg er viss um að íslenska landsliðið geti komið á óvart eins og EM í Frakklandi fyrir tveimur árum en þá gerðu Íslendingar sér lítið fyrir og slógu Englendinga út í 16-liða úrslitunum.

„Það er svo gaman að koma fólki á óvart,“ segir Jóhann Berg en eins á EM er íslenska landsliðið „litla liðið“ í baráttunni á stærsta sviðinu þegar út í HM er komið. „Í byrjun tímabilsins var Burnley annað eða þriðja liðið sem þótti líklegast til að falla og það bjóst enginn við því að við myndum slá Englendinga út á EM. Það er alltaf gott að vera litla liðið því fólki líkar þau.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert