Þjálfari Mexíkó dáist að Íslandi

Marco Fabian (númer 10) fagnar með Juan Carlos Osorio eftir …
Marco Fabian (númer 10) fagnar með Juan Carlos Osorio eftir að hafa skorað fyrsta markið gegn Íslandi. AFP

Íslenska landsliðið í knatt­spyrnu varð að sætta sig við 3:0-tap gegn Mexí­kó í vináttu­leik í Santa Cl­ara í Kali­forn­íu í nótt. Eftir góða byrjun á fyrri hálfleiknum skoraði Marco Fabi­án fyrsta mark leiksins á 37. mínútu áður en Miguel Layún bætti tveimur við í síðari hálfleik til að tryggja óþarflega stóran sigur á annars ágætu liði Íslands.

Juan Carlos Osorio, þjálfari Mexíkó, hrósaði íslenska landsliðinu í hástert eftir leik og sagði að erfitt væri að spila gegn því.

„Íslendingar trúa á sína aðferð og halda alltaf áfram að berjast, ég dáist að því í hreinskilni sagt.“

„Þeir spila einfaldan fótbolta; markmaðurinn sendir á framherjann og svo reyna þeir að vinna seinni boltann. Sumir halda að þegar þú mætir liði eins og Íslandi þá muni það ekki einu sinni eiga skot á markið. Það er ekki þannig, sem betur fer átti markvörður okkar góðan leik.“

Mexíkó mætir Króatíu í öðrum vináttuleik á þriðjudaginn og spila svo gegn ríkjandi heimsmeisturum Þýskalands í fyrsta leik sínum á HM í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert