Vitum allar um mikilvægi leiksins

Sara Björk Gunnarsdóttir
Sara Björk Gunnarsdóttir mbl.is/Golli

„Við þurfum nauðsynlega að ná þremur stigum út úr þessum leik sem er gríðarlega mikilvægur,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði kvennalandsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is í dag en Ísland mætir Slóveníu í undankeppni HM í Lendava í Slóveníu á morgun.

Ísland er með 7 stig í riðlinum eftir þrjá leiki, Tékkland er einnig með 7 stig en eftir fjóra leiki og Þýskaland er í efsta sætinu með 9 stig eftir fjóra leiki. Slóvenía er með 3 stig eftir þrjá leiki. Slóvenar töpuðu, 6:0, fyrir Þjóðverjum og 4:0 gegn Tékkum og höfðu betur á móti Færeyingum, 5:0.

„Við verðum allar að vera á tánum í þessum leik og ekki vera með neitt vanmat. Slóvenska liðið er fínt lið og ef við verðum ekki upp á okkar besta og ekki einbeittar þá getur illa farið. Við þurfum á þessum þremur stigum að halda til koma okkur í betri stöðu í riðlinun,“ sagði Sara sem leikur á morgun sinn 117. landsleik.

„Ef við náum því besta fram hjá öllum leikmönnum þá er ég viss um að við förum með sigur af hólmi. Það er mikill hugur í okkur og tilhlökkun að byrja aftur að spila í undankeppninni. Það er mikilvægt að byrja leikinn sterkt og það ætlum við okkur að gera. Við vitum allar um mikilvægi leiksins og ég finn það og sé að við erum allar tilbúnar í þetta verkefni,“ sagði Sara Björk en Ísland sækir svo Færeyinga heim í undankeppninni á þriðjudaginn.

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Wolfsburg

Eiga möguleika á þrennunni

Sara Björk stendur í ströngu með þýska liðinu Wolfsburg en liðið á góða möguleika á að vinna þrennu í ár. Wolfsburg er með þriggja stiga forskot á Bayern München í deildinni og á að auki leik til góða, liðið er komið í undanúrslit í bikarkeppninni þar sem það mætir Essen og er í undanúrslitunum í Meistaradeildinni þar sem andstæðingurinn verður Chelsea.

„Við erum í góðri stöðu að vinna þrennuna í ár en það eru erfiðir leikir fram undan í átt að þessum titlum. Við þurfum svo sannarlega að vinna fyrir þeim. Ég er ótrúlega spennt að hafa tækifæri á að vinna þrennuna og það eru spennandi tímar fram undan. Við eigum eftir að mæta Bayern á útivelli í deildinni svo það getur allt gerst ennþá. Við vorum heppnar í drættinum í bikarnum að fá Essen. Við eigum að vinna Essen en bikarleikir eru oft öðruvísi og við þurfum að spila vel til þess. Chelsea-liðið er með enn betra lið núna frá því við spiluðum við það síðast svo það verður krefjandi að slá það út,“ sagði Sara Björk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert