„Auðvitað eigum við möguleika“

Sigurður Ragnar tekur í höndina á þjálfara Jórdaníu.
Sigurður Ragnar tekur í höndina á þjálfara Jórdaníu. Ljósmynd/the-afc.com

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kínverska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, telur að lið hans sé vel í stakk búið til að koma á óvart þegar það mætir Japan í undanúrslitum í Asíubikarnum í Jórdaníu á morgun.

Kína bar sigur úr býtum í A-riðlinum í Asíubikarnum og tryggði sér þar með farseðilinn í úrslitakeppni HM sem fram fer á næsta ári en japanska liðið á titil að verja í Asíubikarnum og hafnaði í öðru sæti á HM í Kanada fyrir þremur árum eftir að hafa hampað heimsmeistaratitlinum í Þýskalandi árið 2011.

„Auðvitað eigum við möguleika á móti Japan. Við erum minna liðið í þessum leik og við vitum að flestir reikna með því að Japan vinni og komist áfram,“ sagði Sigurður Ragnar á fréttamannafundi í dag.

„En við höfum alveg trú á því að við eigum möguleika og vonandi getum við sýnt það í leiknum. Við erum ánægð að vera komin á þetta stig í keppninni og að spila við Japan sem er með sterkt lið og varð heimsmeistari fyrir ekki svo löngu síðan. Lið mitt ber mikla virðingu fyrir japanska liðinu en við vitum vel að við eigum möguleika. Nú þurfum við að einblína á okkar styrkleika og reyna að lágmarka styrkinn sem býr í japanska liðinu,“ sagði Sigurður Ragnar en Kína hafði betur á móti Taílandi, Filippseyjum og Jórdaníu á leið sinni í undanúrslitin.

„Við höfum spilað vel á mótinu til þessa en við þurfum að spila virkilega vel á móti Japan til að eiga möguleika á sigri.“

mbl.is