Undanúrslitin í hættu hjá Vidal

Arturo Vidal.
Arturo Vidal. AFP

Sílemaðurinn Arturo Vidal sem leikur með þýska meistaraliðinu Bayern München á það á hættu að missa af leikjunum gegn Evrópumeisturum Real Madrid þegar liðin eigast við í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Vidal meiddist á æfingu Bayern-liðsins á sunnudaginn og sagði Jupp Heynckes, þjálfari meistaranna, við fréttamenn í dag að Vidal þurfi að gangast undir minni háttar aðgerð vegna hnémeiðsla sem hann varð fyrir.

„Arturu féll niður án þess að lenda í einhverju samstuði og meiddi sjálfan sig. Hann þarf að fara í litla aðgerð og verður frá í einhvern tíma en við vitum ekki hversu lengi,“ sagði Heynckes. Bayern München tekur á móti Real Madrid 25. þessa mánaðar og sækir svo Evrópumeistarana heim 1. maí.

Vidal verður því ekki með Bayern gegn sínum gömlu félögum annað kvöld þegar liðin eigast við í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar en Bæjarar stefna á að vinna þrennu í ár. Bayern er með 20 stiga forskot á Schalke í toppsæti þýsku 1. deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir en Bayern tryggði sér í síðustu viku meistaratitilinn sjötta árið í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert