Grindvíkingar komnir á HM

Brasilíska landsliðið sem vann Ísland 1:0 á Laugardalsvellinum síðasta sumar.
Brasilíska landsliðið sem vann Ísland 1:0 á Laugardalsvellinum síðasta sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn núverandi leikmaður Grindavíkur og annar fyrrverandi voru í byrjunarliði Brasilíu í nótt þegar liðið tryggði sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu árið 2019 í Frakklandi.

Rilany Aguiar, sem leikur í ár sitt annað tímabil með Grindvíkingum, spilaði allan leikinn með Brasilíu í 3:0 sigri á Argentínu og Thaisa, sem lék með Grindavíkurliðinu í fyrra en er nú komin til Sky Blue í Bandaríkjunum, spilaði í 87 mínútur og skoraði annað mark liðsins. Cristiane og Debinha skoruðu hin tvö mörkin, en staðan var 0:0 í hálfleik.

Fjögur lið eru í lokakeppni Suður-Ameríkubikarsins og tvö þau efstu fara á HM í Frakklandi en það þriðja fer í umspil. Brasilía er með 6 stig eftir tvær umferðir, Argentína 3, Síle og Kólumbía 1 stig hvort.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert