Góð staða Liverpool eftir sýningu Salah

Roberto Firmino og Mohamed Salah faðmast en þeir skoruðu tvö …
Roberto Firmino og Mohamed Salah faðmast en þeir skoruðu tvö mörk hvor í kvöld. AFP

Liverpool er í góðri stöðu í einvígi sínu við Roma í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu, eftir 5:2-sigur á Anfield í kvöld í fyrri undanúrslitaleik liðanna. Mohamed Salah fór hamförum í leiknum gegn sínum gömlu félögum.

Liverpool komst í 5:0 í kvöld og var Salah í lykilhlutverki í fyrstu fjórum mörkunum. Egyptinn skoraði fyrstu tvö í fyrri hálfleik, það fyrra með glæsilegu skoti í slá og inn en það seinna með laglegri vippu eftir frábæran undirbúning Roberto Firmino.

Liverpool-menn voru margfalt betri aðilinn lengst af í leiknum og gestirnir frá Ítalíu virtust ekki líklegir til að skora framan af seinni hálfleiknum. Þess í stað kom Sadio Mané Liverpool í 3:0 eftir sendingu frá Salah inn í teiginn. Roberto Firmino skoraði svo tvö síðustu mörk Liverpool, um miðjan seinni hálfleik, það fyrra eftir frábæran undirbúning Salah og það seinna eftir hornspyrnu James Milner.

En þegar 10 mínútur voru eftir og leikurinn virtist vera að fjara út skoraði Edin Dzeko upp úr þurru og minnkaði muninn í 5:1. Salah hafði verið skipt af velli skömmu áður. Fimm mínútum síðar bætti Diego Perotti svo við marki úr vítaspyrnu, eftir að boltinn hafði skotist í hönd James Milner innan teigs.

Roma á því enn von um að komast áfram í úrslitaleikinn en liðin mætast að nýju á Ítalíu á miðvikudaginn eftir viku.

Federico Fazio og Sadio Mané eigast við í leiknum á …
Federico Fazio og Sadio Mané eigast við í leiknum á Anfield í kvöld. AFP
Liverpool 5:2 Roma opna loka
90. mín. Radja Nainggolan (Roma) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert