Roma sigurstranglegra en Liverpool

Jordan Henderson og félagar æfa fyrir leikinn.
Jordan Henderson og félagar æfa fyrir leikinn. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, segir Roma sigurstranglegri aðilinn í undanúrslitarimmu liðanna í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Fyrri leikurinn er á Anfield kl. 18:45 í kvöld. 

Liverpool vann einvígi sitt á móti Manchester City í átta liða úrslitum með sannfærandi hætti og samanlögð úrslit voru 5:1. Roma fór áfram á móti Barcelona eftir magnaðan 3:0-heimasigur eftir að fyrri leikurinn tapaðist 4:1. 

„Þeir sendu skilaboð í síðasta leiknum sínum með því að slá Barcelona úr leik. Við reynum allt hvað við getum til að ná úrslitum. Vonandi eigum við fína möguleika á að fara áfram eftir fyrri leikinn," sagði Henderson. 

„Roma er sigurstranglegra en við eftir einvígið við Barcelona. Margir bjuggust við að Barcelona yrði Evrópumeistari, en Roma var sterkari aðilinn og fór áfram," bætti hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert