Marseille tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í fótbolta, þrátt fyrir 2:1-tap í framlengingu fyrir RB Salzburg í Austurríki í kvöld. Marseille vinnur einvígið samanlagt 3:2.
Marseille vann fyrri leik liðanna á heimavelli sínum, 2:0 og stóð því vel að vígi fyrir leik kvöldsins. Amadou Haidara skoraði hins vegar fyrir RB Salzburg á 53. mínútu og Bouna Sarr varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 65. mínútu og var staðan í einvíginu því jöfn, 2:2.
Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja. Portúgalinn Rolando skoraði sigurmark Marseille á 116. mínútu og tryggði franska liðinu sæti í úrslitaleik á móti Atlético Madríd.