Skoða 48 þjóða HM í Katar

Gianni Infantino er forseti FIFA.
Gianni Infantino er forseti FIFA. AFP

Alþjóðlega knattspyrnusambandið staðfesti í dag áform um að fjölga þátttökuþjóðum á heimsmeistaramótinu í Katar 2022 úr 32 í 48. Sambandið var búið að ákveða fjölga þjóðunum á HM 2026, en Gianni Infantino, foresti FIFA, hefur mikinn áhuga að flýta ferlinu.

Hugmyndin kom fyrst fram á fundi í Argentínu í síðasta mánuði. „Þetta er mjög áhugaverð hugmynd og það er þess virði að skoða hana vel og vandlega,“ sagði Infantino við fréttamenn. 

Skipleggendur mótsins í Katar eru ekki ánægðir með hugmyndina. Verði þjóðunum fjölgað eykst pressan um að nágrannaþjóðir fái að halda keppnina með ríkinu. Katar mun aðeins byggja átta velli fyrir keppnina, en um 12 velli þarf til að halda 48 þjóða mót, sem mun innihalda 80 leiki. 

Þjóðir eins og Barein, Kúveit og Sádi-Arabía kæmu til greina að halda mótið með Katar. Vegna deilna þjóðanna væri slíkt samstarf hins vegar ekki auðvelt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert