Búist við tíðindum frá Buffon

Gianluigi Buffon.
Gianluigi Buffon. AFP

Ítalskir fjölmiðlar búast við því að Gianluigi Buffon, einn besti knattspyrnumarkvörður samtímans, muni tilkynna á morgun að hann hefði lagt skó og hanska sína á hilluna frægu eftir afar farsælan feril.

Buffon er orðinn fertugur og staðfesti umboðsmaður hans að Buffon myndi koma fram á fréttamannafundi á heimavelli Juventus á morgun, fimmtudag.

Buffon er fyrirliði Juventus sem tryggði sér sinn sjöunda meistaratitil á Ítalíu í röð á dögunum, auk þess sem liðið varð bikarmeistari fjórða árið í röð. Hann á að baki 1.050 leiki á ferlinum, hefur unnið ítölsku A-deildina níu sinnum, bikarinn fimm sinnum og heimsmeistaratitilinn með Ítölum einu sinni, svo eitthvað sé nefnt. Hann er leikjahæsti landsliðsmaður þjóðarinnar frá upphafi með 176 landsleiki.

mbl.is