Öruggur sigur Atlético í úrslitaleiknum

Leikmenn Atlético Madrid við bikarlyftinguna í kvöld.
Leikmenn Atlético Madrid við bikarlyftinguna í kvöld. AFP

Spænska liðið Atlético Madrid tryggði sér í kvöld sigur í Evrópudeildinni í knattspyrnu eftir að hafa unnið Marseille frá Frakklandi í úrslitaleik keppninnar í Lyon. Franski Antoine Griezmann skoraði tvívegis í 3:0 sigri, en þetta er í þriðja sinn sem Atlético vinnur í þessari keppni.

Marseille fékk fyrsta alvörufæri leiksins þegar Valere Germain komst einn í gegn eftir sendingu Dimitri Payet. Payet þurfti síðar að fara meiddur af velli í fyrri hálfleik og munaði um minna.

Fyrra mark Griezmann kom á 21. mínútu eftir hreint skelfileg mistök í vörn Marseille. Steve Mandanda í markinu sendi þá boltann út, Frank Zambo fékk hann í sig án þess að ná að taka á móti honum og Griezmann slapp einn í gegn og skoraði. Staðan 1:0 í hálfleik.

Strax á fjórðu mínútu síðari hálfleiks skoraði hann aftur eftir laglega sókn. Hann sendi þá á Koke, dreif sig inn í teig þar sem Koke fann hann aftur með hárnákvæmri sendingu og kláraði hann færið laglega. Staðan 2:0 fyrir Atlético og róðurinn þungur fyrir Marseille.

Frakkarnir reyndu að komast inn í leikinn á ný og komust næst því tæpum tíu mínútum fyrir leikslok þegar Kostas Mitroglou skallaði í stöng. Það var hins vegar Atlético sem átti síðasta orðið þegar fyrirliðinn Gabi skoraði í blálokin og hrósaði Atlético því 3:0 sigri og lyfti bikarnum í leikslok.

Þetta er í þriðja sinn sem Atlético vinnur Evrópudeildina, en það gerði liðið einnig árin 2010 og 2012. Marseille er hins vegar að tapa sínum þriðja úrslitaleik í Evrópubikarkeppni.

Sigur í Evrópudeildinni gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni á næsta tímabili, en Atlético var þegar búið að tryggja sæti sitt þar vegna stöðu sinnar í spænsku deildinni. Það þýðir að franska 1. deildin fær aukasæti í keppninni að ári þar sem þriðja sætið mun tryggja Meistaradeildarsæti. Marseille er fyrir lokaumferðina í fjórða sæti, stigi á eftir Lyon sem er í því þriðja, og á því enn möguleika á Meistaradeildarsæti.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Leikmenn Atlético Madrid fagna sigrinum í Evrópudeildinni í leikslok.
Leikmenn Atlético Madrid fagna sigrinum í Evrópudeildinni í leikslok. AFP
Marseille 0:3 Atlético opna loka
90. mín. Leik lokið Öruggur sigur Atlético í þessum úrslitaleik.
mbl.is