„Ég elska hann“

Diego Simeone fagnar eftir sigurinn í Evrópudeildinni í gærkvöld.
Diego Simeone fagnar eftir sigurinn í Evrópudeildinni í gærkvöld. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Antoine Griezmann sem leikur með Atlético Madrid hefur verið sterklega orðaður við Barcelona síðustu vikurnar en Griezmann átti frábæran leik í gær þegar Atlético tryggði sér sigur í Evrópudeildinni með 3:0 sigri gegn Marseille í úrslitaleiknum.

Diego Simeone, þjálfari Atlético Madrid, sendi Griezmann skilaboð eftir leikinn.

„Hvað sem hann vill gera verð ég ánægður. Hann gaf mér allt sem hann átti. Ég elska hann. Ef hann verður um kyrrt þá verður það frábært og við höldum áfram að vaxa saman. Ef hann fer þá vil ég bara láta hann vita að ég elska hann,“ sagði Simeone eftir úrslitaleikinn í gærkvöld.

Talið er að Griezmann geri upp hug sinn eftir HM í Rússlandi en hann hefur spilað með Madridarliðinu frá árinu 2014. Hann hefur einnig verið orðaður við Manchester United en mestar líkur eru á að hann fari til Börsunga.

mbl.is