Iðrast ummæla sinna

Gianluigi Buffon.
Gianluigi Buffon. AFP

Gianluigi Buffon segist iðrast ummæla sinna sem hann viðhafði eftir síðari leik Juventus og Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í síðasta mánuði.

Buffon missti stjórn á skapi sínu þegar Michael Oliver dæmdi vítaspyrnu í uppbótartíma. Buffon var rekinn af velli fyrir kröftug mótmæli en Cristiano Ronaldo skoraði úr vítaspyrnunni og tryggði Real Madrid farseðilinn í úrslitaleikinn.

Eftir leikinn lét Buuffon falla ljót orð í garð Olivers og sagði meðal annars að Oliver væri með ruslatunnu í stað hjarta og ætti frekar að sitja í stúkunni með konu sinni og börnum, drekka gos og borða franskar kartöflur.

„Eftir leikinn fór ég yfir strikið með það sem ég sagði um dómarann og ég biðst afsökunar á því. Ég er mjög leiður yfir þessu en á 23 ára ferli mínum í meistaradeildinni hef ég aldrei verið rekinn útaf. Ég hegðaði mér illa og ef ég sé dómarann aftur þá myndi ég faðma hann og segja við hann að hann hefði átt að taka sér meiri tíma áður en hann tók ákvörðun í svona mikilvægum leik fyrir okkur og mig,“ sagði Buffon á fréttamannafundi í dag þegar hann tilkynnti að hann ætlaði að yfirgefa Juventus í sumar eftir að hafa spilað með liðinu í 17 ár.

„Dómarinn gaf mér rautt spjald sem ég skil ekki og þið (fjölmiðlar) frekar en að einbeita ykkur að ummælum mínum þá hefðu þið átt að líta á hegðun dómarans. Nokkrum dögum síðar var ég leiður yfir því hvernig ég lét við dómarann því þegar öllu er á botninn hvolft þá er hann mannlegur sem sinnir erfiðu hlutverki.“

Buffon var kærður af aganefnd evrópska knattspyrnusambandsins og verður mál hans tekið fyrir þann 31. þessa mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert