Mögnuð innkoma Kjartans gegn Brøndby

Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason. AFP

Kjartan Henry Finnbogason gerði Hirti Hermannssyni og samherjum í Brøndby stóran grikk í kvöld þegar hann skoraði tvö mörk á lokamínútum leiks Horsens og Brøndby og jafnaði óvænt metin í 2:2.

Brøndby er í hörðum slag við Midjylland um meistaratitilinn og fyrir næstsíðustu umferðina í kvöld voru liðin jöfn að stigum. Midtjylland vann sinn leik gegn FC København á útivelli, 2:0, og því var pressa á Brøndby að vinna Horsens á útivelli.

Allt stefndi í það,  Brøndby var 2:0 yfir í hálfleik og allt fram á lokamínúturnar. Hjörtur kom inná hjá Brøndby á 79. mínútu og Kjartan Henry kom inn á hjá Horsens á 84. mínútu.

Á 89. mínútu var Kjartan felldur rétt utan vítateigs Brøndby og dæmd aukaspyrna. Hann tók hana sjálfur og skoraði laglegt mark, 2:1.

Þegar 10 sekúndur voru komar fram yfir uppbótartímann fékk Kjartan boltann í vítateig Brøndby, tók gabbhreyfingu og færði boltann yfir á vinstri fótinn og sendi hann síðan í markhornið fjær, 2:2.

Þar með er Midtjylland komið með pálmann í hendurnar í baráttunni um meistaratitilinn en fyrir lokaumferðina á mánudaginn er liðið með 82 stig gegn 80 stigum Brøndby. Midtjylland á heimaleik gegn Horsens og verður meistari með sigri. Brøndby á heimaleik gegn AaB og þarf að treysta á að Kjartan og félagar taki stig af Midtjylland, og vinni sinn leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert